Nýr framkvæmdastjóri Auðnu tæknitorgs

Ingunn Sigurpálsdóttir ráðin framkvæmdastjóri Auðnu tæknitorgs

Auðna tæknitorg hefur ráðið Ingunni Sigurpálsdóttur í starf framkvæmdastjóra fyrirtækisins. Hún tekur við starfinu af Einari Mäntylä sem kom að stofnun Auðnu og hefur starfað ötullega við að byggja upp starfsemina undanfarin 6 ár. Ingunn tók við starfinu þann 1. maí 2025 og mun leiða áframhaldandi uppbyggingu og þróun starfsemi Auðnu, sem gegnir lykilhlutverki í íslensku nýsköpunar- og rannsóknarumhverfi með því að aðstoða háskóla- og vísindasamfélagið við að skila uppfinningum og hagnýtanlegum rannsóknarniðurstöðum til samfélagsins í formi lausna, verðmætasköpunar og aukninnar samkeppnishæfni.


Áður en hún tók við sem framkvæmdastjóri starfaði Ingunn sem markaðs- og fjármálastjóri Auðnu. Hún býr yfir víðtækri og fjölbreyttri reynslu af stjórnun, markaðsstarfi og fjármálum úr íslensku atvinnulífi, sem hefur veitt henni dýrmæta innsýn í það hvernig styðja má við frumkvöðla, efla samstarf og stuðla að árangri í nýsköpunarumhverfi. Ingunn er með B.Sc. gráðu í rekstrarverkfræði frá Háskólanum í Reykjavík og hefur auk þess styrkt þekkingu sína með sérhæfðum námskeiðum í verkefnastjórnun, stafrænum markaðsmálum og viðburðastjórnun.


„Það er bæði mikill heiður og spennandi áskorun að taka við starfi framkvæmdastjóra Auðnu tæknitorgs,“ segir Ingunn. „Félagið hefur á undanförnum árum byggt upp mikilvæga innviði sem styðja við nýsköpun á Íslandi og ég hlakka til að vinna með frábæru teymi og samstarfsaðilum til að efla þetta starf enn frekar.“

DEILA

FLEIRI GREINAR

14. apríl 2025
Þriggja daga MasterClass námskeið fyrir starfsfólk Landspítalans og doktorsnema í heilbrigðistækni
24. mars 2025
Þriggja daga námskeið þar sem lögð var áhersla á vísindalega nýsköpun, fjármögnun og hugverkarétt.
5. febrúar 2025
Landspítali hefur sett af stað nýja námsbraut í nýsköpun fyrir klíníska fagaðila.
Fleiri greinar